Prenta

Húrra við unnum Skrekk

 

Seljaskóli varð í 1. sæti í hæfileikakeppni grunnskólanna Skrekk sem fram fór í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi við frábærar undirtektir áhorfenda ekki síst nemendahópsins úr Seljaskóla sem fylgdi sínu liði á sýninguna. Atriði Seljaskóla heitir „Allt til fjandans farið“ og fjallar um það þegar tæknin tekur yfir. Seljaskólahópurinn steig síðastur á svið þeirra átta skóla sem komust í úrslit. Samhæfing, liðsheild og góður andi einkenndi hópinn og fögnuðurinn var gífurlegur þegar borgarstjórinn tilkynnti úrslitin. Skrekksstyttan komin í annað sinn í Seljaskóla. Þrotlausar æfingar, skipulag, vel útfært atriði, dansinn,söngurinn,  leikurinn samhæfingin og  gleðin tókust í hendur og leiddi þau til sigurs. Skrekkshópurinn var undir stjórn félagsstarfskennaranna Þóris Brjáns Ingvarssonar og Gauta Þórs Ástþórssonar. Þeir sögðu að Seljaskólahópurinn hefði fengið mikið hrós frá starfsmönnum Borgarleikhússins fyrir fagmannlega og góða framkomu á æfingum og sýningum. Til hamingju Seljaskóli.

Sjá einnig http://reykjavik.is/frettir/seljaskoli-sigradi-skrekk

 
 
 
Prenta

Skipulagsdagur

Þriðjudagurinn 18.nóvember er skipulagsdagur í Seljaskóla. Á skipulagsdögum er ekki kennsla heldur vinna kennarar að sameiginlegum verkefnum, sitja námskeið, samráðsfundi o.s.frv.

Prenta

íslenskuverðlaunin

Nokkrir nemendur Seljaskóla veittu viðtöku Íslenskuverðlaunum  unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík á Degi íslenskrar tungu  16. nóvember.  Þau sem voru tilnefnd af Seljaskóla heita Agnes Lóa Gunnarsdóttir, Íris Þórdís Jónsdóttir, Berglind Rut Bragadóttir, Esther Hwa Herman fyrir að vinna leikþátt úr sögunni um Rómeó og Júlíu, leggja mikla alúð í vinnuna og sýna frumkvæði og óræðni við uppsetningu, Leiknir Logi Björnsson fyrir gott vald á íslenskri tungu og Kalina Louisa Kamenova Mihaleva fyrir að sýna framúrskarandi árangur í íslensku og stafsetningu. Afhendingin fór fram í Norðurljósasal Hörpu að viðstöddu fjölmenni. Það er skóla- og frístundasvið sem stóð fyrir verðlaunaveitingunni en skólar tilnefna fulltrúa. Íslenskuverðlaunum unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík er ætlað að efla áhuga nemenda á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara á sviði tjáningar, talaðs máls og ritaðs. Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa náð góðum árangri í íslensku, hvort heldur þeir hafi íslensku að móðurmáli eða sem annað tungumál. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Við óskum þeim kærlega til hamingju með verðlaunin.

 

 

Prenta

Ásmundarverk og sýning 4.bekkinga í Seljakirkju

 

Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri af­hjúpaði í dag verk­in Móðir mín í kví, kví og Fýk­ur yfir hæðir eft­ir Ásmund Sveins­son við Selja­tjörn og Selja­kirkju. Nemendur í 4. bekk og kennararnir þeirra Anna Sveinsdóttir, Kristín G. Friðbjörnsdóttir og Laufey Unnur Hjálmarsdóttir tóku þátt í samstarfsverkefni vegna þessa viðburðar. Opnuð var sýn­ing á lista­verk­um  barnanna í 4. bekk í Selja­kirkju sem þau hafa unnið að und­an­farn­ar vik­ur í skól­an­um og í Ásmund­arsafni. Þema sýn­ing­ar­inn­ar eru þjóðsög­ur og verk Ásmund­ar Sveins­son­ar. Verkefnið er unnið  und­ir hand­leiðslu kenn­ara þeirra í sam­starfi við Lista­safn Reykja­vík­ur og Bók­mennta­borg­ina. Börnin í 4. bekk buðu skólastjórnendum, nemendum og kennurum  í þriðja og fimmta bekk að vera viðstödd afhjúpunina og sjá sýninguna. Í  kirkjunni var boðið upp á heitt kakó og klein­ur í safnaðar­heim­ili kirkj­unn­ar um leið og sýningin var skoðuð. Nemendur sýnd­u klippi­mynd­ir með til­vís­un í Krumma­sög­ur, mynda­sög­ur með til­vís­un í þjóðsög­una um Bakka­bræður og leir­verk sem hafa vís­un til álfa­sagna auk þess sem vinna þeirra í Ásmundarsafni var sýnd á skjá í kirkjunni. Alls tóku um 60 börn þátt í verk­efn­inu. Þau fengu m.a. leiðsögn í Ásmund­arsafni um verk Ásmund­ar og unnu leir­verk í safn­inu. Þetta eru fyrstu útil­ista­verk sem Reykja­vík­ur­borg hef­ur sett upp í Selja­hverfi.